Wenger sakar Stokemenn um hrottaskap

Emmanuel Adebayor haltrar af velli í leiknum á laugardaginn.
Emmanuel Adebayor haltrar af velli í leiknum á laugardaginn. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sakar leikmenn Stoke City um að hafa reynt af ásettu ráði að meiða sína menn í viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni síðasta laugardag. Stoke vann leikinn óvænt, 2:1, og þeir Emmanuel Adebayor og Theo Walcott þurftu báðir að fara meiddir af velli.

„Í mínum augum er það hugrekki að spila góðan fótbolta þegar þú veist að menn sitja um að sparka þig niður aftan frá, án þess að reyna að ná til boltans. Þá er eina markmiðið að meiða mótherjann og ég get bent ykkur á ákveðnar tæklingar úr þessum leik sem sýna að ég hef rétt fyrir mér," sagði Wenger við Sky Sports íd ag.

„Haldið þið virkilega að Rory Delap hafi reynt að ná boltanum þegar hann braut á Walcott eða að Ryan Shawcross hafi ætlað að fara í boltann þegar hann sparkaði Adebayor niður. Þeir voru meiddir af ásettu ráði. Í mínum augum er heigullinn sá sem finnur ekki aðrar leiðir en að meiða mótherjann," sagði Wenger en auk tvímenninganna er Bacary Sagna enn að jafna sig af spörkum sem hann fékk í leiknum á laugardaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert