Ferguson setur Sky í fjölmiðlabann

Ferguson lætur fjölmiðla ekki komast upp með neitt múður, frekar …
Ferguson lætur fjölmiðla ekki komast upp með neitt múður, frekar en leikmenn sína. Hann þykir harður í horn að taka. Reuters

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, er þekktur skapmaður, líkt og takkaskórinn sem endaði í snoppufríðu andliti David Beckham um árið, fékk að kenna á. Ferguson hefur löngum átt í útistöðum við fjölmiðla og hefur nú neitað að tala við fréttamenn Sky-sjónvarpsstöðvarinnar, þar sem tveir sérfræðingar í myndveri, þeir Phil Thompson og Paul Merson, gagnrýndu Wayne Rooney, liðsmann Manchester United.

Thompson sagði að Rooney hefði átt að fá rautt spjald fyrir að kyssa merki félagsins á treyjunni sinni í leiknum gegn Everton og Merson hélt því fram að Rooney hefði átt að fá rautt spjald fyrir brot í leiknum gegn Hull City. Mun Ferguson hafa tekið ummælin nærri sér og neitað að ræða við fréttamenn Sky í kjölfarið. Ekki er vitað hvað bannið mun standa lengi yfir.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ferguson bregst svona við gagnrýni, en í fyrra sagðist Ferguson ekki ætla að ræða við fréttamenn BBC, eftir að fram kom í heimildamyndinni Father and Son, sem fjallar um störf Ferguson sem knattspyrnustjóra, að hann þrýsti á yngri leikmenn liðsins að ráða sig til sonar hans, Jason, sem er umboðsmaður fyrir leikmenn í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert