Dómarinn viðurkennir að hafa rangt fyrir sér

Steven Gerrard fellur í vítateignum eftir viðskipti við Pernia. Dómarinn …
Steven Gerrard fellur í vítateignum eftir viðskipti við Pernia. Dómarinn dæmdi víti, en segist þó ekki hafa verið viss. Reuters

Martin Hansson, sænski dómarinn úr leik Liverpool og Atletico Madrid í Meistaradeildinni á þriðjudag, hefur viðurkennt að hann hafi haft rangt fyrir sér þegar hann færði Liverpool vítaspyrnu á silfurfati á lokamínútum leiksins, sem varð til þess að Liverpool jafnaði leikinn.

„Frá mínu sjónarhorni séð er ég ekki viss um að þetta hafi verið víti, en samkvæmt reglum UEFA er mér ekki heimilt að ræða um einstök atvik leiksins,“ sagði Svíinn í viðtali við sænsku sjónvarpsstöðina SVT.

Þess ber að geta, að samkvæmt reglum eiga dómarar ekki að dæma leikbrot nema þeir séu fullvissir um að brot hafi átt sér stað. En Hansson virðist hafa ráðfært sig við línuvörðinn áður en hann dæmdi vítið, samkvæmt Pernia, varnarmanni Atletico, sem fékk vítið dæmt á sig.

„Þegar við kvörtuðum við línuvörðinn baðst hann afsökunar. Þá var enn tími til að hætta við dóminn, en það var ekki gert. Manni hlýtur að líða eins og um einhverskonar samsæri sé að ræða gegn okkur; UEFA hefur bannað okkur að leika á heimavelli okkar, bannað þjálfaranum að koma að hliðarlínunni og gefa Liverpool víti á lokamínútunum!“ sagði Pernia, hundsvekktur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert