Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði að sínir menn hefðu ekki verið nógu beittir í síðari hálfleiknum til að knýja fram sigur gegn Fenerbache í Meistaradeild Evrópu og þreyta eftir erfiða leiki undanfarið hefði sagt til sín.
Leikurinn endaði 0:0 og Arsenal hefur nú ekki náð að sigra í þremur leikjum í röð.
„Við hefðum átt að nýta yfirburði okkar í fyrri hálfleik og skora mörk. Leikmenn Fenerbache voru sáttir við að verjast þar sem við náðum ekki að skora og þessvegna þróaðist leikurinn þannig í seinni hálfleik að við vorum mikið með boltann en þeir lágu til baka og reyndu lítið að koma fram á völlinn.
Það var greinilega komin þreyta í liðið hjá mér og það er athyglisvert að skoða úrslit ensku liðanna í þessari viku. Þau unnu öll sína leiki í fyrstu umferðum keppninnar en í þessari viku náði ekkert þeirra að sigra. Það er líklega vegna þess að þau hafa spilað erfiða leiki mjög þétt í úrvalsdeildinni og áttu ekki mikið aflögu í þessa leiki," sagði Wenger við fréttamenn.