Nú er að duga eða drepast fyrir Arsenal

Wenger og Ferguson takast í hendur en þessir frábæru knattspyrnustjórar …
Wenger og Ferguson takast í hendur en þessir frábæru knattspyrnustjórar hafa oftar en ekki lent í rimmu, bæði innan sem utan vallar. Reuters

Í dag fara fram sex leikir í ensku úrvalsdeildinni þar sem hæst ber leik Arsenal gegn Manchester United á Emirates-leikvanginum, en liðin og stjórar þeirra hafa lengi eldað grátt silfur saman. Arsenal stendur þó verr að vígi sökum meiðsla lykilmanna og þeirrar andlegu ládeyðu sem virðist hrjá liðið í kjölfar lakra úrslita.

Lið Arsenal hefur ekki verið með sjálfu sér í undanförnum leikjum. Liðið hefur tapað þremur viðureignum það sem af er tímabilinu og það ekki gegn neinum sérstaklega stórum spámönnum; Fulham, Hull og Stoke.

Með ungt og óreynt lið

Jafnteflið við grannafjendurna í Tottenham virðist þó hafa slegið liðið algerlega út af laginu, sem segir kannski eitthvað um andlegan styrk þess, en liðið er bæði ungt og óreynt. Arsene Wenger virðist heldur ekki með sjálfum sér, en hann sýnir jafnan fádæma yfirvegun við hvaða aðstæður sem er. Nú hefur hann hins vegar farið offari gegn nýliðum Stoke, sem hann sakar um að vera bleyður, fyrir að sparka fullharkalega í sína menn í síðasta leik, sem vannst á tveimur innköstum Rory Delap. Þó voru það aðeins leikmenn Arsenal sem fengu spjöldin í þeim leik og þar af eitt rautt.

Er ljóst að það hlakkar í Skotanum skapbráða, Sir Alex Ferguson, yfir þessum hremmingum síns gamla fjandmanns, en tapi liðið gegn Manchester í dag gæti það lent níu stigum á eftir toppliði Chelsea, sem gæti reynst banabiti þess þegar á hólminn er komið. Fyrir utan andlegar hremmingar Arsenal, líkt og þær væru ekki nóg, þá þjáist liðið einnig af fjarveru lykilleikmanna, sem eru frá vegna meiðsla. Má þar helst nefna framherjana Emmanuel Adebayor, Robin Van Persie og The Walcott, en þeir verða líklega allir fjarri góðu gamni í leiknum í dag. Það kemur því í hlut Danans Nicklas Bendtner að setja boltann í markið, og Spánverjinn Cesc Fabregas er ávallt hættulegur á miðjunni.

Sjá sér leik á borði

Liðsmenn Manchester United mæta til leiks hvergi bangnir, en þeir hafa unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum í deildinni.

Hafi einhvern tíma gefist tækifæri til að sigra Arsenal á útivelli, þá er það nú, þegar andleg ládeyða og meiðsli lykilmanna hrjá liðið.

Manchester-menn geta auk þess stillt upp afar sterku liði, enda hafa þeir úr meiri breidd að moða en Lundúnaliðið. Scholes og Hargreaves eru frá sem fyrr, en Wes Brown og Darren Fletcher, sem hefur spilað frábærlega það sem af er, taka væntanlega heldur ekki þátt.

Leikur Arsenal og Manchester hefst klukkan 12.45 á hádegi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert