Harry Redknapp hefur sannarlega snúið gengi Tottenham við en liðið vann í dag góðan útisigur á Manchester City, 2:1. Darren Bent gerði bæði mörk Lundúnaliðsins eftir að Robinho hafði komið City yfir snemma leiks, en rauða spjaldið fór þrívegis á loft í leiknum.
City-maðurinn Gelson Fernandes var rekinn af velli á 26. mínútu og Tottenham var ekki lengi að nýta liðsmuninn því Bent jafnaði í 1:1 þremur mínútum síðar eftir skelfileg mistök Richard Dunne. Sigurmarkið gerði Bent svo um miðjan seinni hálfleik en hann gerði í nýliðinni viku þrennu í leik í UEFA-bikarnum.
Dunne fékk að líta beint rautt spjald á 83. mínútu þegar hann braut á Bent sem var við það að sleppa einn í gegn. Frakkinn Benoit Assou-Ekotto úr liði Tottenham fékk svo að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt skömmu fyrir leikslok.
Tottenham hefur því náð í 10 stig af 12 mögulegum síðan Redknapp tók við og komst með sigrinum af botni deildarinnar. Þetta var þriðji tapleikur City í röð og liðið er nú í 12. sæti.
Textalýsingu á leiknum má finna hér.