Það þykir jafnan tvíeggja sverð fyrir knattspyrnustjóra að fá stuðning frá stjórnarformönnum knattspyrnuklúbba sinna eftir tapleiki, enda þýðir það nánast ávallt ávísun á brottrekstur viðkomandi þjálfara innan skamms tíma. Nú hefur Mark Hughes, stjóri Manchester City, fengið slík stuðningsorð í hattinn frá Khaldoon Al-Muburak, stjórnarformanni félagsins.
Liðið tapaði í gær fyrir Tottenham á heimavelli og hefur því aðeins unnið einn leik af síðustu sjö en leikurinn í gær var þriðji tapleikur liðsins í röð.
„Við erum rólegir og yfirvegaðir og við í stjórn félagsins berum mikla virðingu fyrir Hughes. Þetta er sigurlið sem á í smá basli, en sem betur fer les ég ekki blöðin sem segja að Hughes sé undir pressu, enda finnst mér það ótrúlegt,“ sagði Al-Mubarak.