Enska knattspyrnufélagið Barnsley veltir fyrir sér málsókn á hendur Chris Morgan, fyrirliða Sheffield United, eftir að Iain Hume, sóknarmaður Barnsley, slasaðist illa á höfði eftir návígi við Morgan í leik liðanna í 1. deildinni um helgina.
Hume, sem er 25 ára gamall, höfuðkúpubrotnaði og varð fyrir heilablæðingu, og hefur verið á gjörgæslu á sjúkrahúsi síðan á laugardag. Ástand hans er sagt stöðugt.
Simon Davey, knattspyrnustjóri Barnsley, sagði við BBC í dag að hann væri æfur útí dómara leiksins, Andy D'Urso, fyrir að sýna Morgan aðeins gula spjaldið fyrir brotið á Hume. „Það er hreinasti skandall að hann skyldi ekki fá rauða spjaldið," sagði Davey.