Nágrannaliðin Liverpool og Everton gætu neyðst til að deila saman leikvangi í framtíðinni, en bæði lið höfðu í hyggju að byggja sér nýjan leikvang, í sitthvoru lagi, áður en efnahgskreppan skall á.
Eigendur Liverpool, Bandaríkjamennirnir George Gillet og Tom Hicks, hafa þegar aflýst byggingu nýs heimavallar Liverpool, sökum fjárhagsörðugleika, en þeir skulda um 350 milljónir punda, lán sem gjaldfellur í janúar. Horfa þeir því hýru auga til erkifjendanna enda er nýr leikvangur ein helsta forsenda fyrir auknum tekjum klúbbsins.
Svipaðar hugmyndir voru uppi á árunum 2003-07 hjá borgaryfirvöldum, en þær skotnar í kaf af fulltrúum beggja liða. Everton ætlaði að byggja Kirkby Park og Liverpool vildi byggja Stanley Park, en þar sem báðar hugmyndirnar hafa verið settar á ís sökum fjárskorts, kemur nú æ sterkar til greina að liðin byggi sér einn sameiginlegan heimavöll, sem þjónaði báðum liðum, líkt og þekkist víða í Evrópu, sérstaklega á Ítalíu.
„Af hverju ekki? Tæknin í dag gerir okkur kleift að láta leikvanginn skipta um lit, bláan eða rauðan, með því einu að ýta á takka,“ segir Keith Harris, stjórnarformaður Seymore Pierce, fjárfestingarfélagsins sem myndi sjá um að leggja til fjármagnið í nýja leikvanginn.
Hann telur ríginn ekki eiga að skemma fyrir.
„Nei varla. Þeir eiga það til að kýtast sín á milli, en þetta er ekki svona innbyggt hatur.“