Fernando Torres hefur náð sér af meiðslum og gæti verið í fremstu víglínu hjá Liverpool í dag þegar liðið sækir Bolton heim í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en hann hefst kl. 12.45. Rafael Benítez knattspyrnustjóri kveðst þó ekki viss um að Torres byrji inná.
Torres lék síðast með Liverpool í deildinni þann 5. október en hefur síðan verið frá vegna meiðsla, þar til hann lék með annars hálfgerðu varaliði félagsins gegn Tottenham í deildabikarnum í vikunni.
„Það er ljóst að hann er ekki kominn í sitt besta form á ný. Hann er frábær leikmaður en bæði Robbie Keane og Dirk Kuyt hafa leikið vel þannig að hann þarf að berjast fyrir sinni stöðu," sagði Benítez við fréttamenn í gær.