Joe Hart, markvörður Manchester City, fór meiddur af velli í leik liðsins gegn Hull í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og varð að draga sig útúr landsliðshópi Englands fyrir vináttulandsleikinn gegn Þjóðverjum í Berlín á miðvikudag.
Hart fór af velli eftir aðeins 15 mínútur en hann lenti í árekstri við Daniel Cousin, sóknarmann Hull, þegar sá síðarnefndi skoraði fyrsta mark leiksins í dag, en þar urðu lokatölur 2:2.
Mark Hughes knattspyrnustjóri City staðfesti við Sky Sports að Hart hefði tognað illa á ökkla og yrði líklega frá keppni í minnst 3-4 vikur.
Kasper Schmeichel leysti Hart af hólmi í markinu og verður væntanlega á milli stanganna hjá liðinu í næstu leikjum.