Enn eru breytingar á enska landsliðshópnum í knattspyrnu fyrir leikinn gegn Þjóðverjum í Berlín á miðvikudag. Nú er það Frank Lampard sem er úr leik og meiðsli Stevens Gerrards hafa verið staðfest, en þeir Jimmy Bullard frá Fulham og Scott Parker frá West Ham hafa verið kallaðir inní hópinn.
Lampard fékk högg á rifbein í leik Chelsea gegn WBA á laugardag. Hann tók þátt í æfingu enska liðsins í morgun en eftir skoðun var ákveðið að hann myndi ekki spila landsleikinn.
Liverpool hafði tilkynnt um meiðsli Gerrards, sem reif vöðva í læri í leik liðsins við Bolton á laugardag. Hann var samt kallaður í læknisskoðun hjá enska knattspyrnusambandinu og þar voru meiðslin staðfest og hann sendur aftur heim til Liverpool.
Hópurinn lítur nú þannig út: Carson, Robinson, James, Bridge, Davies, Johnson, Terry, Lescott, Mancienne, Richards, Upson, Barry, Carrick, Downing, Bullard, Parker, Wright-Phillips, A Young, Agbonlahor, Bent, Crouch, Defoe, Walcott.