Shay Given, markvörður Newcastle, hefur verið gerður að fyrirliða írska landsliðsins í knattspyrnu í fjarveru Robbie Keane, og mun því heilsa Kristni Jakobssyni dómara fyrir vináttuleik Írlands og Póllands í Dublin annað kvöld.
Keane missir af leiknum vegna meiðsla í öxl sem hann varð fyrir í leik með Liverpool gegn Bolton síðasta laugardag.
Given er kominn í nokkra æfingu í embætti því hann hefur verið fyrirliði Newcastle í vetur. Hann var tekinn framyfir þá Damien Duff og Richard Dunne sem þóttu líklegir í stöðu fyrirliða.
Írar hafa ekki tapað í sex síðustu landsleikjum sínum undir stjórn hins kunna Ítala, Giovanni Trapattoni.
Kristinn Jakobsson dæmir leikinn og aðstoðardómarar eru þeir Sigurður Óli Þórleifsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson.