Éta óhóflega og skilja ekki Ferguson

Gerard Pique fagnar marki með Barcelona.
Gerard Pique fagnar marki með Barcelona. Reuters

Gerard Pique, spænski knattspyrnumaðurinn sem fór frá Manchester United til Barcelona í sumar, segir að það sé með ólíkindum hvað leikmenn ensku meistaranna fái að láta ofan í sig, og ennfremur að sumir leikmanna Manchester United hafi aldrei skilið orð af því sem Alex Ferguson knattspyrnustjóri segir við þá.

Pique sagði við spænska tímaritið Sport að hann hefði verið orðlaus þegar hann kom til Manchester United og kynntist mataræði leikmanna félagsins.

„Það var margt ótrúlegt í gangi hjá United. Allir máttu borða það sem þeir vildu og menn verða að hafa í huga að það sem sagt er um enskan mat er engin lygi. Við þurftum að fara í fitumælingu á hálfs mánaðar fresti og það var með ólíkindum að tækið skyldi ekki láta undan þunga sumra leikmannanna, sem höfðu belgt sig út af hamborgurum og bjór," sagði hinn 21 árs gamli miðvörður.

Hann sagði jafnframt að það hefði verið erfitt fyrir sig að skilja margt sem Alex Ferguson sagði, skoski framburðurinn hans væri ekki auðveldur viðureignar.

„Hann talar ensku með skoskum hreim og það hljómaði eins og kínverska í mínum eyrum. Þetta var þó enn verra fyrir suma og sumir leikmanna Manchester United í dag skilja enn ekki eitt einasta orð sem hann segir," sagði Pique en lét jafnframt í ljós ánægju með það að hafa verið í röðum Manchester United í fjögur ár. Hann fór þangað frá Barcelona 17 ára gamall.

„Ég var í sigursælum árgangi hjá Barcelona sem vann allt sem hægt var að vinna og það voru viðbrigði að fara til Englands. En það var dýrmæt reynsla því ég varð að knattspyrnumanni í Manchester," sagði Pique, en bætti því þó við að hjá Pep Guardiola í Barcelona fái hann enn betri þjálfun og leiðsögn en í Englandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert