Paulo Sousa, fyrrum landsliðsmaður Portúgals í knattspyrnu og leikmaður með Juventus, Inter Mílanó, Dortmund og fleiri liðum, hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri hjá enska 1. deildarliðinu QPR.
Sousa, sem er 38 ára gamall, var ráðinn til hálfs þriðja árs en hann hefur verið aðstoðarþjálfari portúgalska landsliðsins að undanförnu. Hann lagði skóna á hilluna vegna meiðsla fyrir sjö árum, aðeins 31 árs, en þá hafði hann m.a. unnið Meistaradeild Evrópu tvö ár í röð, með Juventus 1996 og Dortmund 1997, og leikið 51 landsleik fyrir Portúgal.
Hann spilaði einnig með Benfica, Sporting Lissabon og Parma. Sousa tekur við af Iain Dowie sem var rekinn úr starfi hjá QPR fyrr í haust en Gareth Ainsworth hafði leyst hann af í millitíðinni og verður áfram einn af þjálfurum liðsins.
QPR er í 10. sæti 1. deildar og er talið líklegt til að blanda sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar.