Dimitar Berbatov, sóknarmaður Manchester United, fór meiddur af velli í Serbíu í gærkvöld þegar hann lék þar með búlgarska landsliðinu í knattspyrnu. Búlgarir steinlágu, 6:1, og Berbatov íhugar að hætta að leika fyrir hönd þjóðar sinnar vegna ásakana um að slakt gengi landsliðsins sé honum að kenna.
Búlgörum hefur gengið illa að undanförnu og þeir standa þegar höllum fæti í undankeppni HM. Steininn tók úr í gærkvöld þegar þeir fengu skellinn í Serbíu og biðu sinn versta ósigur í sjö ár.
Berbatov fékk högg á vöðva og haltraði af velli í fyrri hálfleik. Óvíst er hvort hann geti leikið með Manchester United gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Plamen Markov þjálfari Búlgara sagði reyndar við fjölmiðla eftir leik að ekki væri útlit fyrir að meiðslin væru alvarlegs eðlis.
Umboðsmaður Berbatovs, Emile Danchev, segir við breska fjölmiðla í dag að framherjinn snjalli sé tilbúinn til að hætta að leika með landsliði Búlgaríu. Hann sé orðinn þreyttur á að vera skotspónn óánægðra knattspyrnuáhugamann í heimalandi sínu.
„Dimitar sagði við mig hann sé reiðubúinn til að hætta að leika með landsliðinu vegna þess að fólk kenni honum um slæmt gengi þess," sagði Danchev.