Gallas: Vandamál í leikmannahópi Arsenal

William Gallas er ekki ánægður með suma samherja sína.
William Gallas er ekki ánægður með suma samherja sína. Reuters

William Gallas, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Arsenal, hefur skýrt frá vandamálum innan leikmannahóps félagsins á þessu tímabili og gefur í skyn að þau séu hluti af skýringunni á köflóttu gengi liðsins að undanförnu. Hann segir að 25 ára gamall leikmaður í liðinu hafi komið mjög illa fram við samherja sína.

„Leikmenn hafa komið til mín í leik sem fyrirliða og rætt við mig um ákveðinn leikmann í liðinu og kvartað undan honum. Ég hef farið og talað við viðkomandi leikmann, og sýnir okkur móðgandi framkomu. Það koma tímar þar sem ég skil ekki hvernig svona lagað getur gerst. Ég vil ekki gefa upp nafn en þetta er mjög svekkjandi. Ég er 31 árs, leikmaðurinn er sex árum yngri en ég," sagði Gallas við fréttastofu AP.

Samkvæmt því koma þrír leikmenn Arsenal til greina, en þeir Robin van Persie, Emmanuel Eboue og Bacary Sagna eru allir 25 ára gamlir.

Gallas upplýsti jafnframt að rifrildi hefði átt sér stað í hálfleik gegn Tottenham á dögunum, þegar Arsenal komst í 4:2 en fékk á sig tvö mörk í blálokin og leikurinn endaði 4:4.

„Það kom upp vandamál í hálfleik en það eina sem ég gat þá sagt við hópinn var að við skyldum leysa það að leik loknum, ekki í leikhléinu. Menn verða að skilja að til þess að verða meistarar verða þeir að eiga stórleik um hverja helgi og berjast fyrir sínum. Við erum farnir að mæta liðum sem þora að spila góðan fótbolta á móti okkur, og hræðast ekki að sækja gegn okkur á okkar eigin heimavelli og þetta er orðið hættulegt fyrir okkur. Við erum ekki nógu baráttuglaðir, við þurfum að vera tilbúnir í slagsmálin. Sum lið ná að spila virkilega vel gegn okkur og við verðum að geta mætt þeim," sagði Gallas, sem jafnframt vill leggja allt í sölurnar til að vinna bikar á þessu tímabili.

„Ég tel að við séum ekki úr leik í baráttunni um meistaratitilinn þó við séum vissulega níu stigum á eftir Chelsea. Menn verða að vera bjartsýnir og mega ekki gefast upp. Ég verð að vinna titil í ár, Arsenal verður að vinna titil í ár. það eru orðin 4-5 ár síðan félagið vann eitthvað og það er ekki nógu gott," sagði William Gallas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert