Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United sagði eftir jafntefli sinna manna gegn Aston Villa í kvöld að lið sitt hefði misst af góðu tækifæri til að minnka muninn á Chelsea og Liverpool. United gerði markalaust jafntefli og þar með gerðu öll þrjú toppliðin markalaust jafntefli í leikjum sínum.
„Við getum vel minnkað þetta fyrir áramótin. Það vita allir að við getum komist á gott skrið og ef okkur tekst að minnka muninn niður í 2-3 stig fyrir áramótin þá eigum við góða möguleika á að hampa titlinum,“ sagði Ferguson.
Hann neitar að afskrifa Arsenal í baráttunni þrátt fyrir að Lundúnaliðið hafi tapað sínum fimmta leik í deildinni. ,,Arsenal-liðið er það gott að ég vil ekki dæma það úr leik. Ég get heldur ekki afskrifað að Aston Villa endi á meðal fjögurra efstu. Liðið er feikilega vel skipulagt og það er erfitt heim að sækja,“ sagði Fergson en hans mönnum tókst ekki að finna netmöskvana á Villa Park.
Til gamans má geta að Atli Viðar Björnsson tókst að skora framhjá Brad Friedel á Villa Park í sumar þegar FH náði 1:1 jafntefli við Villa í UEFA-keppninni.
Martin O'Neill knattspyrnustjóri Aston Villa hrósaði sínum mönnum eftir leikinn við Englandsmeistarana.
,,Þeir sýndu frábæra baráttu og við erum að bæta okkur jafnt og þétt. Við erum með marga hæfileikaríka leikmenn í okkar röðum. Við gerðum Manchester United erfitt fyrir og ég er stoltur af mínu liði. Ég er þeirrar skoðunar að Vidic hefði átt að fá rautt spjald þegar hann braut á Agbonlahor,“ sagði O'Neill.