Aston Villa og Manchester United gerðu markalaust jafntefli í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og þar með gerðu þrjú efstu liðin öll 0:0 jafntefli í leikjum sínum í dag og Arsenal sem er í fjórða sæti tapaði, 3:0.
Úrslitin verða að teljast sanngjörn en heimamenn börðust eins og ljón allan tímann og gáfu meisturunum engin grið. Wayne Rooney fékk besta færi leiksins en skot hans af stuttu færi á 63. mínútu fór yfir markið.
Chelsea og Liverpool hafa 34 stig í efsta sæti, Manchester United er með 25, Aston Villa 24 og Arsenal 23,
Textalýsing frá leiknum á Villa Park er hér að neðan:
United hefur gengið sérlega vel á Villa Park en í síðustu 11 viðureignum liðanna á þessum velli hafa Englandsmeistararnir farið með sigur af hólmi.
10 mínútur eru liðnar af leiknum á Villa Park og hefur fátt markvert gerst í leiknum. Baráttan er allsráðandi og liðin skiptast á að sækja.
14. Cristiano Ronaldo á þrumuskot utan teigs en Brad Friedel markvörður Aston Villa sýnir góð tilþrif og ver skotið í horn.
38. Park í upplögðu færi en beið og lengi með að skjóta og Ashley Young náði að bjarga meistaralega með því að renna sér fótskriðu.
41. Nemanja Vidic skallar rétt framhjá eftir aukaspyrnu frá Ryan Giggs.
45. Búið er að flauta til leikhlés á Villa Park. Leikurinn hefur verið frekar tilþrifalítill og lítið um færi.
Síðari hálfleikur er hafinn og er mikill kraftur í heimamönnum. Þeir hafa þjarmað vel að meisturunum í byrjun hálfleiksins og ætla greinilega að selja sig dýrt.
63. Wayne Rooney fékk algjört dauðafæri en viðstöðulaust skot hans af stuttu færi fór yfir markið.