Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool fer í sögubækur félagsins á morgun þegar liðið mætir Marseille í Meistaradeildinni. Þetta verður 66. Evrópuleikur Liverpool undir stjórn Spánverjans og hann verður þar sá þjálfari sem oftast hefur stjórnað liðinu í Evrópukeppninni.
Benítez kemst upp fyrir Bill Shankley sem stjórnaði Liverpool-liðinu í 65 Evrópuleikjum og þar á eftir kemur svo Bob Paisley með 61 leik en Liverpool varð þrívegis Evrópumeistari undir hans stjórn.
Í leikjunum 65 sem Benítez hefur stjórnað Liverpool í Evrópukeppninni hefur það unnið 38, tapað 13 og gert 14 jafntefli en hann tók við liðinu í júlí 2004.
Knattspyrnustjórar Liverpool í Evrópukeppni eru, vinningshlutfall í sviga:
65 Rafael Benítez - (58,5%)
65 Bill Shankly - (52,3%)
61 Bob Paisley - (63,9%)
52 Gerard Houllier - (50,0%)
19 Joe Fagan - (73,7%)
16 Roy Evans - (50,0%)
12 Graeme Souness - (50,0%)