Cesc Fabregas var fyrirliði Arsenal í fyrsta skipti í kvöld þegar liðið vann sigur á Dynamo Kiev, 1:0, í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu og tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.
Fabregas tók við af William Gallas sem var settur úr embætti fyrir að gagnrýna liðsfélaga sína opinberlega í síðustu viku. Það var einmitt nýi fyrirliðinn sem lagði upp sigurmarkið á 87. mínútu, með langri sendingu framá Niklas Bendtner sem skoraði, 1:0.
„Það var mikilvægt að ná að vinna fyrsta leikinn sem fyrirliði og það var hárrétt hugarfar í liðinu frá fyrstu mínútu til síðustu. Þetta eru frábær úrslit, við erum komnir áfram og getum farið án pressu í síðasta leikinn gegn Porto. Nú einbeitum við okkur að stórleiknum við Chelsea í úrvalsdeildinni á sunnudaginn," sagði Fabregas við fréttamenn eftir leikinn í kvöld.
Gallas kom aftur inní lið Arsenal og Arsene Wenger knattspyrnustjóri var mjög ánægður með hans frammistöðu. Gallas skoraði mark í leiknum en það var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.
„Hann var staðráðinn í að standa sig og var með frábæra einbeitingu. Áhorfendur komu vel fram við hann, þeir skynjuðu að hann gaf sig allan í leikinn og ég er mjög ánægður með viðbrögð þeirra," sagði Wenger.