Ferguson: Engin ógn af City

Alex Ferguson er alls óhræddur við granna sína í Manchester …
Alex Ferguson er alls óhræddur við granna sína í Manchester City. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur sent nágrönnunum í Manchester City tóninn fyrir nágrannaslaginn í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Ferguson segir að United stafi engin ógn af City.

Manchester City er talið ríkasta knattspyrnufélag heims eftir að arabískir olíufurstar keyptu það í september. Liðið er í 11. sæti úrvalsdeildarinnar en United er í 3. sætinu.

„Hvar eru þeir í deildinni? Fyrirgefið, en sem stendur eru það Chelsea og Liverpool sem eru fyrir ofan okkur, ekki aðrir," sagði Ferguson á fréttamannafundi í dag.

„Þegar Roman Abramovich kom til Chelsea og keypti alla þessa leikmenn varð liðið meistari tvö ár í röð. En það eru mörg önnur dæmi um að svona lagað hafi ekki gengið upp. Það er meira en að segja það að eyða peningum á réttan hátt. Þá þurfa menn að taka réttar ákvarðanir og frammi fyrir því stendur Mark Hughes núna. Þetta  gekk upp hjá Chelsea, þeir hafa verið sigursælir, haldið sig á toppnum og eyða ekki peningum í dag eins og þegar Abramovich kom fyrst til félagsins," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert