Ferguson: Hreinlega frábærir

Cristiano Ronaldo grípur um höfuð sér þegar hann áttar sig …
Cristiano Ronaldo grípur um höfuð sér þegar hann áttar sig á að Howard Webb hafi rekið hann af velli. Reuters

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United var að vonum ánægður með sigur sinna manna á Manchester City, 1:0, í  borgarslagnum í ensku úrvalsdeildinni. Hann kom með ýmsar skýringar á rauða spjaldinu sem Cristiano Ronaldo fékk.

„Mér fannst við vera hreinlega frábærir í fyrri hálfleik og þá stjórnuðum við leiknum algjörlega. Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik náði City að lyfta sínum leik og átti nokkur markskot en olli okkur þó ekki teljandi vandræðum. Síðan þurftum við að spila manni færri í rúmar 20 mínútur. Það er aldrei auðvelt, en við vorum ekki í sérstakri hættu. Við þurftum að verjast um skeið en gerðum það vel," sagði Ferguson.

Ronaldo fékk rauða spjaldið fyrir að slá boltann með höndunum eftir fyrirgjöf að marki City þar sem Portúgalinn virtist geta skallað boltann. Hann hafði áður fengið gula spjaldið fyrir brot. Ronaldo sagðist sjálfur hafa fipast vegna flauts úr áhorfendapöllunum. Ferguson kom með fleiri skýringar:

„Hann var að forða því að fá boltann í andlitið, og svo gæti honum hafa verið hrint á bakið í leiðinni. Svo heyrðist honum dómarinn flauta en ég ætla ekki að fara nánar útí þetta, það myndi taka allan daginn að ræða það," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert