Everton sigraði Tottenham á útivelli, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og Portsmouth sigraði Blackburn á heimavelli, 3:2. Everton og Portsmouth eru þar með jöfn í 7. og 8. sæti deildarinnar.
Tottenham er hinsvegar í 16. sætinu með 15 stig og Blackburn er næstneðst með 13 stig.
Hermann Hreiðarsson var á meðal varamanna Portsmouth í dag en kom ekki við sögu.
Everton varð fyrir áfalli gegn Tottenham þegar Aiyegbeni Yakubu þurfti að fara af velli strax á 11. mínútu vegna meiðsla. Louis Saha kom í hans stað.
Staðan var 0:0 í hálfleik, bæði á Fratton Park og á White Hart Lane.
Peter Crouch kom Portsmouth yfir gegn Blackburn, 1:0, á 49. mínútu.
Steven Pienaar kom Everton yfir gegn Tottenham á 51. mínútu, eftir snöggtekna aukaspyrnu, og staðan því 0:1.
Jermain Defoe skoraði fyrir Tottenham gegn Blackburn, 2:0, á 53. mínútu og kom bikarmeisturunum í vænlega stöðu.
En það breyttist á skömmum tíma. Matt Derbyshire svaraði fyrir Blackburn, 2:1, á 62. mínútu og Tugay jafnaði, 2:2, á 67. mínútu.
Sean Davis kom Portsmouth yfir á ný, 3:2, á 76. mínútu, nýkominn inná sem varamaður, og það reyndist sigurmarkið.