Joe Cole, enski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem leikur með Chelsea, segir að hann myndi aldrei vilja spila með liði eins og Arsenal. Lundúnaliðin eigast við á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeidlinni í dag klukkan 16.
Cole sagði að Arsenal léki vissulega einhverja þá bestu knattspyrnu sem á boðstólum væri en liðið ynni ekki titla og það gerði útslagið í sínum augum.
„Arsenal spilar fallegan fótbolta en hverjir hafa unnið titlana undanfarin fjögur ár. Það er frábært að horfa á þá spila en ég myndi ekki vilja spila með þeim og vinna aldrei neitt. Það eru titlarnir sem skipta máli. Maður situr ekki á ströndinni á sumrin og gortar sér af Gruyff-brellunni sem maður gerði í desember eða "klobbanum" sem maður náði í janúar. Til hvers? Maður vill ræða um titlana. Það er okkar markmið, að krækja í bikara á þessu tímabili," sagði Cole við Sunday Mirror.
Leikur liðanna hefst klukkan 16 og fylgst er með gangi mála hér á mbl.is, eins og í öðrum leikjum.