Manchesterslagur í dag

Robinho hefur lífgað mikið uppá lið Manchester City.
Robinho hefur lífgað mikið uppá lið Manchester City. Reuters

Það ríkir mikil spenna í Manchesterborg á Englandi en klukkan 13.30 verður flautað til leiks hjá Manchester City og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Borgarleikvanginum, heimavelli City.

United er ríkjandi Englands- og Evrópumeistari en City er hinsvegar talið ríkasta félag heims í dag eftir að arabískir olíufurstar keyptu það í haust. Lið City hefur líka sótt í sig veðrið að undanförnu, lagði Arsenal á sannfærandi hátt, 3:0, vann Schalke 2:0 í Þýskalandi í UEFA-bikarnum í vikunni, og er til alls líklegt með Robinho í góðum gír í framlínunni. Þá vann City báða leikina gegn United á síðasta tímabili og hefur því ákveðin sálfræðileg tök á grönnum sínum.

Bæði lið endurheimta leikmenn sem hafa misst af síðustu leikjum. Pablo Zabaleta, Gelson Fernandes og Elano geta allir spilað með City á ný og Dimitar Berbatov hefur náð sér eftir tveggja leikja fjarveru vegna meiðsla og gæti spilað með United.

Annar stórleikur fer fram á Stamford Bridge klukkan 16 í dag þegar Chelsea tekur á móti Arsenal. Klukkan 15 hefjast tveir leikir, Portsmouth tekur á móti Blackburn og Tottenham á móti Everton.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert