Ayiegbeni Yakubu, nígeríski knattspyrnumaðurinn hjá Everton, sleit hásin í fæti í leik liðsins gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag og leikur ekki meira með á þessu keppnistímabili.
Atvikið átti sér stað strax á 11. mínútu leiksins, í návígi við Ledley King, og leit sakleysislega út en framherjinn kröfugi þurfti að fara af velli og David Moyes knattspyrnustjóri staðfesti síðan alvarleika meiðslanna.
Louis Saha kom inná í hans stað en ekki vildi betur til en svo að hann tognaði aftan í læri í seinni hálfleiknum og þurfti líka að fara af velli. Þar með er aðeins einn sóknarmaður tilbúinn hjá Everton fyrir næstu leiki, Victor Anichebe.