Manchester City freistaði þess að kaupa spænska landsliðsmarkvörðinn Iker Casillas af Real Madrid fyrir margfalt metfé og bauð honum samning sem hefði gert hann að tekjuhæsta knattspyrnumanni heims. Casillas hafnaði boðinu, að sögn spænskrar útvarpsstöðvar.
Það var stöðin Cadan Ser sem skýrði frá þessu í dag. Þar kom fram að Casillas væri með ákvæði í samningi sínum sem gerði honum kleift að losna frá Real Madrid ef félag væri tilbúið til að greiða fyrir hann sem samsvarar 128 milljónum punda. Til samanburðar er breska metið 32,5 milljónir punda en það er sú upphæð sem City greiddi Real Madrid fyrir Robinho í ágústmánuði. Heimsmetið er upphæðin sem Real Madrid greiddi Juventus fyrir Zinedine Zidane árið 2001 en hún samsvarar 50 milljónum punda.
Þá sagði stöðin að City hefði boðið Casillas 11 milljónir punda í árslaun, eða 230 þúsund pund á viku, en laun þeirra tekjuhæstu í heiminum eru smáaurar í samanburði við það. Sagt er að Casillas hefði hafnað þessu gylliboði og því hafi ekkert orðið af því að City gerði Real Madrid formlegt tilboð.
Breska pundið er í dag 220 íslenskar krónur. Umrædd vikulaun Casillas hefðu því samsvarað 50,5 milljónum króna, árslaunin 2,4 milljörðum króna og kaupverðið 28 milljörðum króna.