Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, viðurkenndi á fréttamannafundi í dag að frammistaða Carlos Tévez gegn Blackburn í deildabikarnum í fyrrakvöld setti sig í mikinn vanda hvað liðsval varðar. United mætir Sunderland í úrvalsdeildinni á sunnudaginn og það verður erfitt fyrir Ferguson að ganga framhjá Tévez sem skoraði fjögur mörk gegn Blackburn.
Tévez hefur ekki átt fast sæti í liði Manchester United í vetur en koma Dimitars Berbatovs til félagsins ýtti Argentínumanninum aftar í goggunarröðinni.
„Að sjálfsögðu er Tévez ekki sáttur við þessa stöðu, hann vill spila sem mest. En ég vil heldur ekki leikmenn sem eru sáttir við að sitja og horfa á leiki. Ég verð að vinna úr stöðunni eins vel og ég get. Hann vill að sjálfsögðu spila, ég vil velja það lið sem er líklegast til að sigra, og verð að vera eins sanngjarn og ég mögulega get. Frammistaða leikmanna hefur mikið að segja og frammistaða hans á miðvikudaginn setur mig í mikinn vanda," sagði Skotinn.
„Carlos gerir mér mjög erfitt fyrir, ég hef verið tvístígandi yfir því hvernig ég á að koma öllum þessum leikmönnum fyrir í byrjunarliðinu. En eitt aðalmálið er að halda jafnvægi í liðinu og ég reyni að vinna í því. Hann lék stórkostlega á miðvikudaginn, kraftmikill og ákveðinn. Hann leggur sig alltaf allan fram og ég virði hann fyrir það, enda þótt það kosti mig andvökunætur," sagði Ferguson.