Martin O'Neill, knattspyrnustjóri Aston Villa, sagði að endirinn á leiknum við Everton í ensku úrvalsdeildinni hefði verið ótrúlegur. Everton jafnaði í uppbótartíma en samt náði Villa að knýja fram sigur, 3:2, á Goodison Park með marki frá Ashley Young.
Villa heldur sér þar með í fimmta sæti deildarinnar, stigi á eftir Arsenal sem er í fjórða sætinu.
„Þetta var ótrúlegur endir og ég gæti ekki verið ánægðari. Sigurinn er magnaður fyrir okkur og það segir mikið um hæfileikana og liðsandann hjá okkur hvernig við knúðum hann fram. Ashley Young átti heimsklassa leik. Hann er stórkostlegur fótboltamaður og hann afgreiddi færin sín meistaralega," sagði O'Neill við BBC.
„Ég hélt að leikurinn hefði verið flautaður af eftir að við jöfnuðum. Ég veit ekki hve miklu var bætt við en svona lagað gerist. Menn héldu að leikurinn væri búinn en þá skoruðu þeir þriðja markið. Við gerðum grundvallarmistök, áttum að sparka boltanum lengst í burtu þegar færi var á en svona fór þetta. Við spiluðum vel, þeir björguðu tvisvar á línu og við áttum sláarskot," sagði David Moyes, knattspyrnustjóri Everton.