Tottenham sigraði West Ham á Upton Park

Didier Zokora hjá Tottenham og Craig Bellamy hjá West Ham …
Didier Zokora hjá Tottenham og Craig Bellamy hjá West Ham eigast við í leiknum í kvöld. Reuters

Tottenham Hotspur vann í kvöld góðan útisigur á West Ham, 2:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Upton Park í London.

Tottenham var nær því að skora í markalausum fyrri hálfleik. Luka Modric fékk ágætt færi í byrjun, Robert Green varði vel frá David Bentley á 38. mínútu og á 42. mínútu skaut Roman Pavlyuchenko í stöng af stutttu færi eftir fyrirgjöf frá Aaron Lennon.

Tottenham náði forystunni á 68. mínútu. Lennon átti fyrirgjöf frá hægri og fyrirliði Tottenham, Ledley King, skoraði með hörkuskalla, 0:1.

Jamie O'Hara skoraði síðan fyrir Tottenham með fallegu skoti frá vítateig eftir snögga sókn á 89. mínútu, 0:2. Í sókninni á undan fékk David Di Michele dauðafæri til að jafna metin fyrir West Ham, einn á markteig gegn Heurelho Gomes markverði sem varði skot hans.

Tottenham komst með sigrinum uppfyrir West Ham og í 15. sætið en bæði liðin eru með 18 stig.

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, er þar með enn með fullt hús stiga á útivelli gegn sínu gamla félagi, West Ham. Þetta var fjórða heimsókn hans á Upton Park í úrvalsdeildinni, sú fyrsta með Tottenham, og hann hefur farið með sigur af hólmi í öll skiptin.

Carlton Cole hefur verið drjúgur með West Ham í vetur.
Carlton Cole hefur verið drjúgur með West Ham í vetur. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert