Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, var hæstánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld þegar þeir lögðu PSV Eindhoven að velli í Hollandi, 3:1, í Meistaradeild Evrópu og tryggðu sér þar með efsta sætið í sínum riðli. Benítez er um leið orðinn sigursælasti knattspyrnustjóri Liverpool í Evrópukeppni.
Hann hvíldi marga lykilmenn og gaf þremur ungum piltum, Stephen Darby, Jay Spearing og Martin Kelly, tækifæri í síðari hálfleiknum. Danko Lazovic kom PSV yfir en Ryan Babel, Albert Riera og David Ngog svöruðu með mörkum fyrir Liverpool.
„Markmið okkar var að vinna riðilinn og tryggja að við fengjum seinni leik 16-liða úrslitanna á Anfield. Ég er mjög ánægður, það var ekki bara að menn eins og Carragher, Arbeloa og Agger lékju vel, ég get sagt það sama um ungu strákana og aðra sem ekki hafa fengið mörg tækifæri í liðinu," sagði Benítez við BBC.
„Það var fjölmargt jákvætt við þennan leik. Við gátum notað þrjá unga stráka og til viðbótar léku Lucas Leiva og David Ngog frábærlega. Við sköpuðum okkur fullt af færum," sagði Benítez sem innbyrti sinn 40. sigur í Evrópuleik sem knattspyrnustjóri Liverpool. Hann er þar með kominn framúr hinum sigursæla Bob Paisley sem vann 39 Evrópuleiki með liðinu.
„Það gefur okkur aukið sjálfstraust að hafa unnið riðilinn og nú lendum við gegn liði sem endar í öðru sæti riðils. Nú vonast ég bara eftir hagstæðum mótherjum og hlakka til seinni leiks 16-liða úrslitanna frammi fyrir okkar stuðningsmönnum á Anfield," sagði Benítez.