Steve Cotterill mun taka við knattspyrnustjórastarfinu hjá enska 2. deildarliðinu Crewe að því er heimildir Sky Sport herma í kvöld. Guðjón Þórðarson fyrrum þjálfari Skagamanna er einn þeirra sem sóst hafa eftir starfinu en Dario Gradi hefur stýrt liðinu tímabundið eftir að Steve Holland var sagt upp störfum í síðasta mánuði.
Cotterill var um tíma við stjórnvölinn hjá Stoke og tók þá einmitt við starfinu af Guðjóni Þórðarsyni árið 2003 en staldraði þar stutt við. Hann var fór til Sunderland og síðan Burnley en hætti þar í nóvember á síðasta ári.
Guðjón hefur reynt að koma sér á framfæri á Bretlandseyjum en hugur hans stefnir á að taka þar upp þráðinn aftur í þjálfun en Guðjón hefur stýrt þremur enskum liðum, Stoke, Barnsley og Notts County.
Crewe situr í botnsætinu í ensku 2. deildinni en liðið vann langþráðan sigur á laugardaginn. Crewe lagði Swindon, 1:0, og var það fyrsti sigur liðsins í 13 leikjum.