Mark Hughes fær fullan stuðning

Mark Hughes er ekki valtur í sessi, miðað við orð …
Mark Hughes er ekki valtur í sessi, miðað við orð framkvæmdastjóra City. Reuters

Garry Cook, framkvæmdastjóri Manchester City, segir að knattspyrnustjórinn Mark Hughes njóti fulls trausts stjórnarmanna og eigenda félagsins þrátt fyrir slæmt gengi liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

City er talið ríkasta félag heims eftir að arabískir auðmenn keyptu það í haust. Það er þó ekki farið að skila sér í úrslitum því liðið er í 17. sæti af 20 liðum í deildinni, með jafnmörg stig og Sunderland sem situr í fallsæti.

„Mark er verulega hæfileikaríkur stjóri og við erum afar ánægðir með að hafa hann við stjórnvölinn hjá félaginu. Hann býr yfir geysilegri reynslu úr fótboltanum, veit nákvæmlega hvað við þurfum að gera, veit hvað það er að ná árangri, og við hlökkum til þess sem hann á eftir að færa félaginu. Hann er afar rólegur og yfirvegaður, og er okkur öllum fordæmi um hvernig á að vinna. Það kemur ekki til greina að við förum á taugum og grípum til aðgerða sem myndu bitna á félaginu til lengri tíma," sagði Cook við Sky Sports í dag.

Fram kom í máli hans að ljóst væri að félagið myndi kaupa leikmenn í janúar en ekki greiða fyrir þá uppsprengt verð.

„Við erum með frábæran hóp leikmanna og vangaveltur um kaup eru mikið meiri en okkar áætlanir segja til um. Hughes hefur sagt til um hvernig við getum bætt hópinn og það er ákveðin stefna í gangi. Það er ákveðin áskorun að eiga við allar þessar vangaveltur því einir 50 leikmenn hafa verið orðaðir við okkur. Það síðasta sem við munum gera er að eyða um efni fram og fara illa með þann grunn sem við byggjum á," sagði framkvæmdastjórinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert