Alex ítrekar að hann vilji yfirgefa Chelsea

Brasilíumaðurinn Alex vill ekki vera varaskeifa hjá Chelsea.
Brasilíumaðurinn Alex vill ekki vera varaskeifa hjá Chelsea. Reuters

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Alex hefur ítrekað þá afstöðu sína að hann vilji helst komast á brott frá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea þegar opnað verður fyrir félagaskiptin um áramótin.

Samskonar fregnir bárust af Alex fyrr í þessum mánuði en Chelsea bar þær til baka og sagði að hann hefði ekki óskað eftir sölu og yrði ekki seldur. Í dag birti götublaðið The Sun ítarlegt við tal við Alex og hefur eftir honum að hann vonist eftir því að ósk sín verði samþykkt og hann fái að skipta um félag í janúar.

„Ég mun reyna aftur í janúar og held að það muni ganga eftir í þetta sinn. Ég er í erfiðri stöðu, ég hef ekkert á móti stjóranum en hann hefur tvo frábæra miðverði, John Terry og Ricardo Carvalho, sem spila alltaf mjög vel, gera sjaldan mistök og hafa leikið saman í einni bestu vörn heims í fjögur ár," segir Alex í viðtalinu og kveðst ekki hafa neitt á móti landa sínum, stjóranum Luiz Felipe Scolari.

„Það skipti engu máli þó nýi stjórinn væri brasilískur, það var alltaf ljóst að þetta yrði erfið barátta fyrir mig. Ég gæti komist að hjá stórum liðum þó ég sé í vandræðum hér, það eru svo mörg topplið sem vantar miðverði. Það kom margt til greina hjá mér í sumar en þá vildi Chelsea ekki láta mig fara. Mitt eina vandamál er að ég vil spila fótbolta," sagði Alex.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert