Eignarhald enska knattspyrnufélagsins Arsenal er nú í uppnámi eftir að tveir stórir hluthafar hættu fyrirvaralaust í stjórn eignarhaldsfélags félagsins.
Lafði Nína Bracewell-Smith og Richard Carr, sem áttu saman um 20% hlut í Arsenal Holdings plc. eignarhaldsfélaginu sem á Arsenal-liðið, hafa sagt sig úr stjórn eignarhaldsfélagins, en Carr mun þó sitja áfram í stjórn Arsenal félagsins sjálfs.
Bracewell-Smith ættin hefur tengst Arsenal-liðinu sterkum böndum síðastliðin 50 ár og því er þessi ákvörðun lafði Nínu í senn undarleg og dramatísk.
Lafði Nína er þó enn þriðji stærsti hluthafinn í félaginu, en óvíst er hvort hún sé tilbúin að selja hlut sinn, sem nemur 15,9 %. Samkvæmt reglum um hlutafélög í Bretlandi verður formlegt yfirtökutilboð að berast, ef hlutur Red and White Holdings, annars stærsta hluthafans, sem nemur 24%, fer upp í 30%.
Hinsvegar var samningur undirritaður í fyrra, sem segir að engin hlutabréf megi verða seld fram að árinu 2012, nema þeim sem sitja í stjórn.
Eignarhald Arsenal virðist því vera að færast úr höndum þeirra sem hafa reynst tryggastir stuðningsmenn félagins undanfarin ár, líkt og stefna stjórnarformannsins, Peter Hill-Wood hefur verið, yfir í hendur utanaðkomandi aðila, eins og bandaríska auðjöfursins Stan Kroenke og úsbekistanum Alisher Usmanov, sem á 24% hlut í gegnum Red and White Holdings. Ef annar hvor þeirra kaupir hlut lafði Nínu, verður sá um leið meirihlutaeigandi Arsenal.
Ekki er þó talið að þessi brottganga lafði Nínu og herra Carr muni hafa nein áhrif á almenna stjórnun félagsins og geta Arsenal aðdáendur því andað rólega, þó svo úrslitin undanfarið á vellinum séu kannski ástæða til annars.
Helstu hluthafar Arsenal Holdings:
Sameiginlegur hlutur stjórnenda 41.8%
Daniel Fiszman 24.1%
Lafði Nina Bracewell-Smith 15.9%
Richard Carr 4.4%
Peter Hill-Wood (Stjórnarformaður) 0.8%
Harris, lávarður frá Peckham 0.09%
Ken Friar 0.07%
Sir Chips Keswick 0.06%
Keith Edelman (Framkvæmdarstjóri) 0.04%
Aðrir: Red & White Holdings 24%; Stan Kroenke 12.4%