Sammy Lee aðstoðarstjóri Liverpool er ánægður með dráttinn sem Liverpool fékk í Meistaradeildinni í dag en fimmfaldir Evrópumeistarar Liverpool drógust gegn Spánarmeisturum Real Madrid sem oftast allra liða hafa landað Evrópumeistaratitlinum, eða níu sinnum talsins.
,,Þetta var frábær dráttur. Við mætum frábæru félagi sem á glæsilega sögu og fyrir Liverpool að mæta Real Madrid er frábært,“ sagði Lee á fréttamannafundi í dag en hann hefur stjórnað æfingum Liverpool-liðsins undanfarna daga þar sem Rafael Benítez gekkst undir aðgerð vegna nýrnasteina.
,,Þessir leikir eru í febrúar og við verðum að gæta okkar að halda einbeitingu og hugsa núna um leikinn við Arsenal sem er á sunnudaginn,“ sagði Lee en hann lék með Liverpool þegar liðin mættust í fyrsta og eina skiptið í Evrópukeppninni. Það var árið 1981 þegar liðin áttust við í úrslitaleik þar sem Liverpool hafði betur, 1:0.