Rooney tryggði Manchester United heimsmeistaratitilinn

Leikmenn Manchester United fagna heimsmeistaratitlinum.
Leikmenn Manchester United fagna heimsmeistaratitlinum. Reuters

Manchester United var að tryggja sér heimsmeistaratitil félagsliða í knattspyrnu eftir 1:0 sigur á Suður-Ameríku meisturunum í LDU Quito frá Ekvador í úrslitaleik sem fram fór á Yokohama vellinum í Japan. Wayne Rooney skoraði sigurmarkið á 73. mínútu leiksins en Manchester United lék manni færri í 50 mínútur eftir að Serbanum Nemanja Vidic var vikið af velli fyrir að slá til mótherja.

Þetta er í annað sinn sem Manchester United verður heimsmeistari félagsliða en liðið bar sigur úr býtum í keppninni árið 1999 en þá var keppt með öðru sniði en í dag.

Það er óhætt að segja að árið 2008 sé gjöfult fyrir Manchester-liðið en liðið varð á árinu Englandsmeistari, Evrópumeistari og nú heimsmeistari.

Textalýsing frá leiknum er hér að neðan:

2. Claudio Bieler fær að líta gula spjaldið fyrir brot á Ronaldo.

4. Chanco leikmaður Quito fékk óvænt dauðafæri eftir aukaspyrnu en skot hans fór framhjá.

10. Wayne Rooney átti gott skot frá vítateigslínu sem markvörður Quito varði vel. Fyrsta marktækifæri Evrópumeistaranna.

Manchester United hefur náð góðum tökum á leiknum og fer leikurinn að mestu fram á vallarhelmingi LDU Quito.

18. Carlos Tevez fékk góða sendingu frá Ronaldo inn á vítateiginn en markvörður Quito varði kollspyrnu Argentínumannsins naumlega.

20. Wayne Rooney fékk dauðafæri en eftir glæsilega sendingu frá Anderson komst hann einn gegn markverði Quito. Rooney vippaði boltanum yfir markvörðinn en boltinn fór naumlega yfir markið. Besta færi United til þessa.

34. Glæsilegri sókn Manchester United lauk með skoti frá Park úr nokkuð þröngu færi sem markvörður Quito varði í horn.

41. Cristino Ronaldo átti góða sendingu inn á markteiginn á Rooney sem náði lausu skoti en það hafnaði í höndum markvarðar Quito.

44. Park fékk dauðafæri eftir sendingu frá Anderson inn á vítateiginn en Kóreumaðurinn hitti ekki boltann.

Búið er að flauta til leikhlés á Yokohama vellinum í Japan þar sem staðan er, 0:0. Manchester United hefur ráðið algjörlega ferðinni í leiknum en hefur ekki tekist að koma boltanum í net Ekvadoranna.

Síðari hálfleikur er hafinn. Engar breytingar hafa verið gerðar á liðunum.

49. Rautt spjald!! Nemanja Vidic er rekinn af velli fyrir að slá til mótherja.

51. Sir Alex Ferguson er fljótur að bregðast við brottrekstri Vidic. Hann kallar Carlos Tevez af velli og í hans stað kemur Johnny Evans.

55. Cristiano Ronaldo átti fast skot rétt utan teigs sem markvörður Quito varði.

60. Rooney fékk góða sendingu frá Anderson en laus skalli hans frá markteigslínunni endaði í höndum markvarðar Quito.

63. Edwin van der Sar hefur haft það frekar náðugt til þessa en Hollendingurinn sýndi lipur tilþrif þegar hann varði langskot frá Alejandro Manso.

73. MARK!! Wayne Rooney brýtur ísinn fyrir Manchester United. Eftir vel útfærða sókn þar sem Carrick átti sendingu á Ronaldo sem framlengdi boltann á Rooney skoraði hann með hnitmiðuðu skoti neðst í markhornið. Þriðja markið hjá Rooney í keppninni staðreynd.

83. Gary Neville kemur inná fyrir Rafael da Silva í stöðu hægri bakvarðar en Brasilíumaðurinn ungi varð fyrir smámeiðslum í öxl.

85. Darren Fletcher leysir Brasilíumanninn Anderson af hólmi.

87. Van der Sar ver glæsilega þrumuskot frá Manso. Boltinn stefndi efst upp í hornið en hollenski markvörðurinn náði að slæmi hendi í boltann og slá hann framhjá.

90. Leiknum er lokið með sigri Manchester United, 1:0.

Man Utd: Van der Sar - Rafael da Silva, Rio Ferdinand, Nemanja Vidic, Patrice Evra - Cristian Ronaldo, Anderson, Michael Carrick, Ju-Shin Park - Carlos Tevez, Wayne Rooney.

Cristiano Ronaldo og William Araujo í baráttunni á Yokohama vellinum.
Cristiano Ronaldo og William Araujo í baráttunni á Yokohama vellinum. Reuters
Park Ji-Sung í baráttu við Norberto Araujo í úrslitaleiknum á …
Park Ji-Sung í baráttu við Norberto Araujo í úrslitaleiknum á HM. Reuters
Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo eru í liði Manchester United.
Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo eru í liði Manchester United. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert