Van Persie: Erum ekkert óhressir

Albert Riera er hér felldur af Bacary Sagna.
Albert Riera er hér felldur af Bacary Sagna. Reuters

Robin van Persie, maður leiksins í viðureign Arsenal og Liverpool, sagði eftir leikinn að góður liðsandi og baráttugleði hafi skilað liðinu jafntefli en Arsenal lék manni færri síðasta hálftíma leiksins eftir að Tógómanninum Emmanuel Adebayor var vikið af velli.

,,Við ræddum um það að við yrðum að berjast allt til loka. Við vildum að sjálfsögðu krækja í sigur en þrátt fyrir að það hafi ekki tekist erum við ekkert óhressir. Það var gaman að skora. Þetta var gott mark,“ sagði van Persie í viðtali við Sky Sport eftir leikinn.

Um brottrekstur Adebayor sagði Van Persie;  ,,Ég sá ekki atvikið en Adebayor sagði mér að hann hefði ekki snert hann og ég verð að trúa honum.“

Sammy Lee stýrði liði Liverpool í fjarveru Benítez og hann hrósaði Íranum Robbie Keane sem hefur mátt þola mikla gagnrýni í vetur.

,,Robbie hefur verið frábær. Hann veldur mótherjunum vandræðum með dugnaði sínum og krafti og það er ekkert vandamál með sjálfstraust hans. Hann á eftir að berjast áfram og reyna að bæta sig,“ sagði Lee sem var í símasambandi við Benítez á meðan leiknum stóð.

,,Hann var ánægður með strákana og úrslitin. Vonandi verður hann kominn til starfa sem fyrst vegna þess að hann er frábær í sínu fagi og það er mikill missir þegar hann er ekki til staðar,“ sagði Lee.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert