Dario Gradi reiknar með að stýra liði Crewe Alexandra í leikjum liðsins um jólahátíðina en hann stjórnar liðinu tímabundið þar til nýr knattspyrnustjóri verður ráðinn. Stjórn Crewe ekki hefur ekki gert upp hug sinn en valið stendur á milli Guðjóns Þórðarsonar og John Ward.
,,Það er 99.9% líkur á að ég verði við stjórnvölinn á öðrum degi jóla,“ sagði Gradi við BBC útvarpið en Crewe, sem situr í botnsæti ensku deildarinnar, mætir þá Oldham.
,,Ef einhver kemur fljótlega þá gæti hann stjórnað liðinu í leiknum við Hartlepool,“ sagði Gradi sem var ráðinn tímabundið eftir Steve Holland var leystur frá störfum í síðasta mánuði.
Gradi er öllum hnútum kunnugur en hann var knattspyrnustjóri liðsins frá 1983 til 2007 og hefur stjórnað liðinu í yfir 1000 leikjum.