Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Englands- Evrópu og heimsmeistara Manchester United segir að sigur sinna manna á HM félagsliða í Japan hafi virkað sem vítamínssprauta á leikmannahópinn sem hafi komið heim með gott veganesti í baráttuna sem fram undan er í úrvalsdeildinni.
Manchester United er sem stendur í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar en það á tvo leiki til góða á Liverpool, Chelsea og Aston Villa sem eru í sætunum fyrir ofan. Helstu keppinautarnir hafa allir tapað stigum í síðustu leikjum og Ferguson er bjartsýnn á að geta minnkað forskotið á toppnum.
,,Það sama gerðist þegar við kepptum á HM í Brasilíu árið 2000. Okkar helstu keppinautar um enska meistaratitilinn, Arsenal og Leeds, náðu ekki að vinna sína leiki sem gerði okkur gott,“ segir Ferguson í viðtali við fréttavef Sky.
,,Ég var ekki hissa að Arsenal og Liverpool gerðu jafntefli en ég var svolítið áhyggjufullur fyrir leik Chelsea og Everton í ljósi þess að Everton hafði ekki tekist að vinna Chelsea í 20 leikjum í röð.
Auðvitað kysi ég að vera í toppsætinu á jóladag en ég vil alltaf vera nálægt toppliðinu þegar að nýju ári kemur og okkur hefur tekist það. Lið sem eru í baráttunni um titilinn tapa alltaf stigum í mars og apríl, jafnvel þótt þú reiknir ekki með því og það sema mun gerast á þessu tímabili,“ segir Ferguson.
Manchester United sækir nýliða Stoke heim á Britannia á annan dag jóla og tekur svo á móti Middlesbrough á mánudag.
,,Við eigum níu leiki framundan næsta mánuðinn og sem betur fer erum við með leikmannahóp sem getur tekist á við það,“ sagði Ferguson.