Guðjón Þórðarson verður næsti knattspyrnustjóri enska 2. deildarliðsins Crewe Alexandra og stýrir væntanlega liðinu í fyrsta skipti þann 3. janúar þegar liðið mætir Millwall í ensku bikarkeppninni.
Haft var eftir Guðjóni í hádegisfréttum Bylgjunnar að ráðningin væri frágengin. Á vef stuðningsmanna Crewe segir að gengið hafi verið frá henni í aðalatriðum á sunnudaginn og hún verði staðfest á næstu dögum. Dario Gradi muni stýra liðinu í jólaleikjunum tveimur.
Crewe er neðst í 2. deildinni og stendur þar illa að vígi en liðið lék mörg ár í 1. deild og hefur verið þekkt fyrir mjög öflugt uppeldisstarf. Meðal uppaldra leikmanna liðsins er Ian Jeffs sem hefur leikið hér á landi undanfarin ár og er nú kominn í Val.
Guðjón er þar með kominn aftur í slaginn í Englandi eftir nokkurt hlé. Hann stýrði Stoke City frá nóvember 1999 til maí 2002 og lauk ferlinum þar með því að fara með liðið uppí 1. deild. Veturinn 2003-2004 var Guðjón knattspyrnustjóri Barnsley í 2. deild en var sagt upp störfum áður en tímabilinu lauk. Hann stýrði síðan liði Notts County í 3. deildinni tímabilið 2005-2006 en hætti að því loknu.
Guðjón var síðan þjálfari Skagamanna 2007 og 2008 en var sagt upp störfum í lok júlí á þessu ári.
Crewe er með 13 stig í neðsta sæti 2. deildar, eftir 21 umferð. Fjögur neðstu liðin falla og Crewe er sjö stigum frá 20. sætinu en þar situr Swindon með 20 stig. Hin þrjú liðin í fallsætum eru Brighton með 20 stig, Cheltenham með 19 og Hereford með 16 stig.
Crewe mætir Oldham á heimavelli á öðrum degi jóla og sækir Hartlepool heim á sunnudaginn, en bæði liðin eru í efri hluta deildarinnar.
Ekkert hefur verið sagt um ráðningu Guðjóns á vef Crewe enn sem komið er.