Liverpool endurheimti toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með því að vinna afar sannfærandi sigur á Bolton á heimavelli sínum, Anfield, 3:0. Írinn Robbie Keane skoraði tvö marka Liverpool og stuðningsmenn liðsins virðast vera búnir að taka hann í sátt.
Spánverjinn Albert Riera skoraði fyrsta mark Liverpool á 26. mínútu með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Steven Gerrard og Robbie Keane bætti tveimur mörkum við í seinni hálfleik en Liverpool réði lögum og lofum frá fyrstu til síðustu mínútu. Grétar Rafn Steinsson lék allan tímann fyrir Bolton og var með betri leikmönnum liðsins.
Manchester City tók nýliða Hull í kennslustund á heimavelli sínum en lokatölur urðu, 5:1, eftir að staðan hafði verið 4:0 í hálfleik. Felipe Caicedo og Robinho gerðu tvö mörk hvor fyrir Manchester-liðið og Stephen Ireland skoraði fimmta markið eftir að Craig Fagan hafði minnkað muninn.
Ryan Taylor og Amr Zaki gerðu mörkin fyrir Wigan í 2:1 sigri gegn Newcastle en Danny Guthrie minnkaði muninn fyrir gestina á lokamínútunni. Sebastien Bassong var vikið af velli í liði Newcastle þegar 20 mínútur voru eftir.
Everton gerði góða ferð á Riverside völlinn í Middlesbrough en gestirnir fóru með sigur af hólmi, 1:0 og skoraði Ástralinn Tim Cahill sigurmarkið á 51. mínútu.
Á Leikvangi ljóssins áttust Sunderland og Blackburn við og lyktaði leiknum með markalausu jafntefli.
Hægt er að skoða atvikalýsingu frá leikjunum með því að smella á hlekkina:
Liverpool - Bolton bein lýsing
Manhester City - Hull bein lýsing
Middlesbrough - Everton bein lýsing