Sammy Lee: Stoltur af liðinu

Robbie Keane og Steven Gerrard fagna einu marka Liverpool í …
Robbie Keane og Steven Gerrard fagna einu marka Liverpool í dag. Keane gerði tvö og Gerrard lagði tvö upp. Reuters

Sammy Lee, aðstoðarstjóri Liverpool, kvaðst afar stoltur af frammistöðu sinna manna í dag þegar þeir sigruðu Bolton örugglega, 3:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Albert Riera kom Liverpool yfir og Robbie Keane gerðu útum leikinn með tveimur mörkum snemma í síðari hálfleik en Steven Gerrard fyrirliði lagði upp tvö fyrri mörkin.

„Svona leikir eru aldrei auðveldir en við vorum þolinmóðir og létum boltann ganga manna á milli. Lykillinn er ávallt að skora fyrsta markið en eftir það þurftum við að ná jafnvægi í leik okkar og reyna að bæta fleirum við. Við sýndum þolinmæði en líka mikil gæði, og okkar stuðningsmenn voru frábærir," sagði Lee og hrósaði Robbie Keane sérstaklega fyrir sitt framlag.

„Hann er frábær leikmaður og mikill liðsauki fyrir okkur," sagði Lee, sem kvaðst ekki velta sér mikið uppúr úrslitum annarra liða, en bæði Chelsea og Manchester United unnu sína leiki í dag og halda pressunni á Liverpool, sem er áfram á toppi deildarinnar.

„Við vitum vel hvað þau gera en þetta snýst allt um hvað við gerum sjálfir. Við þurfum að halda okkar einbeitingu, vitum að það verður ekki auðvelt en eigum ekki að vera stöðugt að fylgjast með hinum. Aðalmálið er að vinna okkar vinnu sjálfir," sagði Sammy Lee.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert