Man.City með tilboð í Michael Owen?

Michael Owen er í sigtinu hjá Manchester City.
Michael Owen er í sigtinu hjá Manchester City. Reuters

Manchester City mun gera Newcastle tilboð í framherjann Michael Owen á nýársdag, samkvæmt frétt enska blaðsins Telegraph sem birtist á netútgáfu þess í kvöld.

Um áramót verður hálft ár eftir af samningi Owens við Newcastle og þá er honum frjálst að semja við önnur félög. Hann hefur gefið til kynna að hann sé aðeins tilbúinn til að leika með liðinu út tímabilið og Newcastle væri því líklega tilbúið til að láta hann fara fyrir þokkalegt verð í janúar, frekar en að missa hann án greiðslu í sumar.

Owen er 29 ára gamall og er fyrirliði Newcastle. Hann hefur verið í röðum félagsins frá 2005 þegar hann kom þangað frá Real Madrid en hefur misst mikið úr vegna meiðsla á þeim tíma og haft hefur verið eftir hátt settum mönnum hjá Newcastle að Owen skuldi félaginu að leika með því a.m.k. eitt ár í viðbót. Hann hefur spilað 89 landsleiki með enska landsliðinu í knattspyrnu og skorað í þeim 40 mörk. Í vetur hefur Owen skorað 7 mörk í 15 leikjum með Newcastle í úrvalsdeildinni.

Á morgun leikur Owen í fremstu víglínu með Newcastle gegn sínu gamla félagi, Liverpool, en þar lék hann frá 11 ára aldri og þar til Real Madrid keypti hann sumarið 2004

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert