Liverpool gjörsigraði Newcastle

Xabi Alonso skorar fimmta mark Liverpool úr vítaspyrnu.
Xabi Alonso skorar fimmta mark Liverpool úr vítaspyrnu. Reuters

Liverpool lék Newcastle grátt, 5:1, á útivelli í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, á St. James' Park. Steven Gerrard skoraði tvö mörk og lagði önnur tvö upp og Liverpool er þá með fjögurra stiga forskot á Chelsea á toppi deildarinnar en Chelsea sækir Fulham heim núna klukkan 14.00 og getur þá minnkað muninn í eitt stig á ný.

Newcastle - Liverpool, bein lýsing.

Newcastle féll með tapinu úr 12. niður í 14. sæti með 22 stig og getur verið enn neðar þegar leikjum dagsins er lokið.

Eftir nær linnulitla sókn og skothrið að marki Newcastle og frábæra markvörslu hjá Shay Given, náði Liverpool forystunni á 31. mínútu. Steven Gerrard skoraði með hörkuskoti eftir sendingu frá Yossi Benayoun, 0:1.

Sami Hyypiä, sem hefði getað skorað tvívegis á fyrstu 20 mínútunum, kom Liverpool í 0:2 á 37. mínútu með föstum skalla eftir hornspyrnu frá Gerrard.

Newcastle kom óvænt inní leikinn á lokasekúndum fyrri hálfleiks þegar David Edgar skoraði með skalla eftir hornspyrnu, 1:2. Liverpool átti 12 markskot gegn 3 í fyrri hálfleik og Shay Given varði hvað eftir annað vel og varnarmenn Newcastle björguðu tvisvar á marklínu frá Sami Hyypiä.

Liverpool komst aftur tveimur mörkum yfir á 50. mínútu þegar Ryan Babel skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Gerrards frá hægri og þvögu í markteig Newcastle, 1:3.

Á 66. mínútu fékk Steven Gerrard frábæra sendingu innfyrir vörn Newcastle frá Lucas Leiva og sendi boltann laglega framhjá Given og í netið, 1:4. Fyrirliðinn var þar með búinn að skora tvö mörk og leggja upp hin tvö, og var síðan skipt af velli að loknu góðu dagsverki.

Liverpool fékk vítaspyrnu á 76. mínútu þegar David Ngog var felldur. Xabi Alonso tók spyrnuna, nýkominn inná sem varamaður, og skoraði af öryggi, 1:5.

Newcastle: Given, Edgar, Taylor, Coloccini, José Enrique, Gutierrez, Guthrie, Butt, N'Zogbia, Duff, Owen.
Varamenn: Harper, Xisco, Geremi, Ameobi, Kadar, LuaLua, Carroll.
Liverpool: Reina, Carragher, Hyypiä, Agger, Insua, Benayoun, Mascherano, Leiva Lucas, Babel, Gerrard, Kuyt.
Varamenn: Cavalieri, Keane, Riera, Alonso, Ngog, El Zhar, Skrtel.

Ryan Babel sendir boltann í mark Newcastle og kemur Liverpool …
Ryan Babel sendir boltann í mark Newcastle og kemur Liverpool í 3:1. Reuters
Jamie Carragher varnarmaður Liverpool brýtur á Michael Owen í leiknum …
Jamie Carragher varnarmaður Liverpool brýtur á Michael Owen í leiknum í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert