Beckham gæti spilað til fertugs

David Beckham og Galliani varaforseti AC Milan.
David Beckham og Galliani varaforseti AC Milan. Reuters

Samkvæmt lækni ítalska liðsins AC Milan, getur enski knattspyrnumaðurinn David Beckham, sem er 33 ára, hæglega spilað meðal þeirra bestu til fertugs.

„Samkvæmt læknisskoðun okkar er hjarta- og æðakerfi Beckham mjög gott. Auk þess er hann í toppformi. Það eina sem hann þarf að gera er að breyta æfingarprógrammi sínu örlítið. Við gerum sífelldar prófanir á leikmönnum okkar, bæði líkamlegar og andlegar. Og þó Beckham sé kannski ekki í eins góðu leikformi og aðrir leikmenn okkar, þá þarf hann ekki nema 15-20 daga til að ná því formi,“ sagði Jean-Pierre Meerseeman, læknir ítalska liðsins.

Og ef eitthvað lið hefur góða reynslu af „ellismellum“ er það AC Milan. Margir muna eftir liðsfélögunum Franco Baresi og Pietro Vierchowood, sem mynduðu elsta miðvarðarpar heimsins fyrir rúmlega 10 árum síðan. Þá er Alessandro Costacurta nýhættur að spila fyrir félagið, en hann er nú 41 árs. Fyrirliði liðsins, Paolo Maldini, er hinsvegar enn í fullu fjöri, en hann er fertugur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert