Joe Kinnear, knattspyrnustjóri Newcastle, sagði að það væri engum blöðum um það að fletta að Liverpool væri besta lið Englands í dag og líklegasta meistaraefnið, eftir að hans menn steinlágu fyrir toppliðinu í gær, 1:5.
„Ég tel að við höfum séð verðandi meistara leika listir sínar í dag, og ég hef ekki séð nokkurn mann spila eins vel í langan tíma og Steven Gerrard gerði í þessum leik. Hann var stórkostlegur," sagði Kinnear en stuðningsmenn Newcastle risu úr sætum og klöppuðu fyrir Gerrard þegar honum var skipt af velli.
„Það er daginum ljósara að Liverpool er besta liðið sem við höfum mætt, þeir voru okkur fremri á öllum sviðum og eru hreinlega frábærir. Vissulega vantaði okkur marga fastamenn vegna meiðsla en leikurinn var einstefna vegna þess að Liverpool er algjört heimsklassalið og ég tek ofan fyrir því. Ef Shay Given hefði ekki verið t il staðar hefði þetta f arið enn verr. Það eina jákvæða fyrir okkur í þessum leik var að hann sýndi og sannaði að hann er langbesti markvörður deildarinnar," sagði Kinnear við fréttamenn eftir leikinn.