„ÉG er fullur tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni og það er óhætt að segja að það byrji með látum því við spilum þrjá leiki á einni viku strax eftir áramótin,“ sagði Guðjón Þórðarson við Morgunblaðið í gær en í dag tekur hann formlega við starfi knattspyrnustjóra hjá enska 2. deildarliðinu Crewe Alexandra.
„Já, ég mæti í vinnuna að morgni, hitti þá stjórnarformann félagsins og Dario Gradi, yfirmann knattspyrnumála, og ræði síðan við það starfsfólk sem verður með mér í þessu,“ sagði Guðjón en verkefni hans er strembið því Crewe situr á botni 2. deildarinnar, sjö stigum frá því að komast úr fallsæti.
„Það má reyndar segja að þetta sé svolítið sérstök staða því það var ekkert úrslitaatriði í sambandi við mína ráðningu hvort liðið myndi halda sínu sæti í deildinni eða ekki. En að sjálfsögðu munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda liðinu í þessari deild. Tilvera Crewe gengur út á það að ala upp unga leikmenn og selja þá til stærri félaga og verðmæti leikmannanna minnkar ef þeir spila einni deild neðar en liðið gerir í dag,“ sagði Guðjón.