Drogba gagnrýndur af samherjum

Didier Drogba er ekki sá vinsælasti í leikmannahópi Chelsea um …
Didier Drogba er ekki sá vinsælasti í leikmannahópi Chelsea um þessar mundir. Reuters

Enska dagblaðið Daily Mail segir í dag að fundur sem Luiz Felipe Scolari knattspyrnustjóri Chelsea hélt með leikmönnum sínum í gær hafi snúist uppí mikla gagnrýni þeirra á samherja sinn, Didier Drogba.

Samkvæmt blaðinu kallaði Scolari leikmenn sína saman á æfingasvæði félagsins, Cobham, til að fara yfir stöðu mála á tímabilinu. Rætt var um leikaðferðir, æfingarnar og fleiri mál en mesta samstaða leikmannanna á fundinum var fólgin í því að segja Drogba til syndanna.

Þeir eru sagðir óhressir með ýmis ummæli hans í fjölmiðlum, m.a. að félagið hafi ekki sýnt sér neinn stuðning þegar amma hans lést, og í kjölfarið hafi hann velt því alvarlega fyrir sér að leggja skóna á hilluna þar sem áhuginn fyrir fótboltanum hafi dvínað verulega.

Daily Mail segir að einn samherja hans hjá Chelsea hafi sagt honum tæpitungulaust að hætta slíku bulli, enda hafi félagið útvegað honum einkaþotu til að komast heim til Fílabeinsstrandarinnar þegar amma hans lést.

Þá segir blaðið að mikill meirihluta leikmanna Chelsea vilji að Drogba verði seldur strax frá félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert